Ánægt starfsfólk er grunnur að góðum árangri. Í vinnustaðagreiningu svara 93% starfsfólks að það sé á heildina litið ánægt í starfi sínu. Áhersla er lögð á að vinnustaðurinn sé öruggur, heilsueflandi og að starfsfólk njóti virðingar. ÁTVR hefur sett sér jafnlaunastefnu og fengið jafnlaunavottun þar sem markmiðið er að allt starfsfólk njóti sömu kjara fyrir sömu eða jafnverðmæt störf, óháð kyni, þjóðerni eða öðrum órökstuddum þáttum. Starfsfólk er hvatt til að nýta sér vistvænar samgöngur með því að gera samgöngusamning og einnig stendur starfsfólki á höfuðborgarsvæðinu til boða að fá lánuð rafhjól. Þetta hefur skilað sér ágætlega og er ánægjuefni að segja frá því að ÁTVR var í 2. sæti í „Hjólað í vinnuna“ og Vínbúðin Heiðrún fékk æðstu viðurkenningu í Hjólavottun vinnustaða. Viðurkenningin, ásamt því að ÁTVR var efst í sínum flokki í Lífshlaupinu, sýnir að ÁTVR hefur náð miklum árangri í að hvetja starfsfólk til heilbrigðari lífstíls. Það skilar sér í færri veikindadögum og afkastameira og ánægðara starfsfólki.
ÁTVR rekur 51 Vínbúð og er nauðsynlegt að halda vel á spöðunum til þess að viðhalda húsnæði og búnaði. Haldið var upp á að framkvæmdum við Vínbúðina Dalvegi lauk á árinu og eins var Vínbúðin Skeifunni stækkuð og endurnýjuð. Báðar þessar Vínbúðir eru meðal þeirra stærstu og afkastamestu á landinu, þannig að mikilvægt var að endurnýja þær. Á undanförnum árum hefur fólki fjölgað mjög í nágrannabæjum höfuðborgarsvæðisins. Var svo komið að Vínbúðirnar Selfossi, Reykjanesbæ og Akranesi önnuðu ekki eftirspurn. Bæði á Selfossi og Akranesi tókst að finna ágætt húsnæði að undangengnum útboðum. Öllum framkvæmdum lauk á árinu og gat starfsfólk og viðskiptavinir fagnað því að verslanirnar voru komnar í nýtt og betra húsnæði. Í Reykjanesbæ var hægt að stækka og endurskipuleggja Vínbúðina á sama stað. Á öllum stöðunum var sérstaklega hugað að aðstöðu starfsfólks þannig að hún væri sem best úr garði gerð. Góður aðbúnaður skilar sér í ánægðara starfsfólki og það skilar sér beint í ánægðari viðskiptavinum. Loks má geta þess að Vínbúðirnar Hvammstanga og Patreksfirði voru teknar í gegn og lagfærðar. Starfsfólki Vínbúðanna vil ég þakka sérstaklega fyrir mikið þolgæði og útsjónarsemi meðan framkvæmdir stóðu yfir.
Vegna umræðu um fjölgun Vínbúða á undanförnum árum er rétt að taka það fram að frá árinu 2010 hefur einungis fjölgað um eina Vínbúð sem staðsett er á Kópaskeri. Árið 2010 voru 50 Vínbúðir á landinu og þá var mannfjöldi 20 ára og eldri 227.337 þannig að 4.547 einstaklingar voru um hverja þeirra. Í árslok 2019 eru Vínbúðirnar 51 og mannfjöldi 20 ára og eldri er kominn í 273.672 þannig að nú eru 5.366 einstaklingar um hverja Vínbúð. Flestar Vínbúðanna eru litlar og með takmarkaðan opnunartíma. Á höfuðborgarsvæðinu eru 14 Vínbúðir og þar eru 12.536 einstaklingar 20 ára og eldri um hverja þeirra.
Samfélagsleg ábyrgð er í kjarna fyrirtækisins og stuðlar hún að aukinni sjálfbærni með innleiðingu á hringrásarhagkerfinu. Til að ná markmiðum um sjálfbærni verður stefna fyrirtækisins fléttuð inn í Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna og loftslagsmarkmið Festu og Reykjavíkurborgar til 2030. Unnið verður áfram með Græn skref í ríkisrekstri, vistvæn innkaup og grænt bókhald.
ÁTVR hefur frá árinu 2012 kolefnisjafnað alla beina losun og mun halda áfram að þróa kolefnisbókhald fyrirtækisins. Á árinu bættust við bókhaldið kolefnisspor umbúða um vöruna og losun kælimiðla. Áfram verður unnið með hagsmunaaðilum í þróun á sjálfbærum lausnum.
Norræn samvinna systurfyrirtækja er mikilvæg og þar eru skilgreind markmið til ársins 2025. Í ár voru birtar upplýsingar um áætlað kolefnisspor umbúða á vef. Á næstu árum verður unnið í vatnsnotkun í framleiðslu vörunnar og líffræðilegum fjölbreytileika.
Greint hefur verið frá sjálfbærni í rekstri fyrirtækisins frá árinu 2012 með GRI (Global Reporting Initiative) aðferðafræðinni og má sjá í sjálfbærniskýrslunni að minni sóun og áhersla á umhverfisvernd skilar fjárhagslegum ávinningi. Dæmi um það er að með því að flokka úrgang og ná 93% endurvinnsluhlutfalli, sparast 5 milljónir í förgunargjöld úrgangs og að auki skapast verðmæti fyrir tæpar 2 milljónir. Munurinn er upp á 7 milljónir króna árlega. Einnig kemur hringrás úrgangs í veg fyrir losun koltvísýrings sem samsvarar notkun allra bifreiða fyrirtækisins í 12 ár.
Undanfarna áratugi hefur verið mikil umræða um framtíð ÁTVR og fyrirkomulag áfengissölu á Íslandi. Sú umræða hefur skilað sér inn á Alþingi og mörg frumvörp og þingsályktunartillögur hafa verið lagðar fram um breytingu á einkaleyfinu sem ÁTVR byggir starfsemi sína á. Á síðustu áratugum hafa alls sextán frumvörp og þrjár þingsályktunartillögur verið lagðar fram. Þær hafa verið ólíkar og gengið mislangt í einkavæðingu. Fyrstu frumvörpin gengu út á að ÁTVR framseldi einkaleyfi sitt til reksturs Vínbúða til einkaaðila. Næst kom frumvarp um að leyfa sölu á áfengi með minna en 22% vínandastyrk í almennum verslunum. Það var lagt fram í lítið breyttri mynd sex sinnum. Þar á eftir kom frumvarp um að leggja ÁTVR niður og leyfa sölu alls áfengis í matvöruverslunum. Það var lagt fram þrisvar án mikilla breytinga. Árin 2017 og 2018 kom fram frumvarp um að afnema einkaleyfi ÁTVR og leyfa sölu áfengis í sérverslunum. Það var lagt fram tvisvar. Ekkert af ofangreindum frumvörpum hlaut brautargengi. Á árinu boðaði dómsmálaráðherra frumvarp um að leyfa einkaaðilum að selja áfengi í netsölu. Frumvarpið var kynnt í samráðsgátt stjórnvalda en hefur ekki enn verið lagt fram á Alþingi þegar þessi orð eru skrifuð. Ekki þarf að fjölyrða um hvaða áhrif óvissa um framtíð ÁTVR hefur á starfsfólk verslunarinnar en það á heiður skilinn fyrir að halda áfram af fullum krafti að veita viðskiptavinum ÁTVR sömu frábæru þjónustuna ár eftir ár þrátt fyrir hugmyndir um að leggja vinnustaðinn þeirra niður.
Ég vil þakka starfsfólki ÁTVR samstarfið á árinu.
Ívar J. Arndal