Inngangur
Formáli forstjóra
Inngangur
Formáli forstjóra

Rekstur ÁTVR gekk samkvæmt áætlun á árinu 2019. Sala á áfengi jókst um 3% og sala á sígarettum minnkaði um 1,5%. Sala neftóbaks jókst um 2% á árinu. Viðskiptavinir ÁTVR eru ánægðir með þjónustuna í Vínbúðunum. Enn og aftur náði ÁTVR frábærum árangri í Íslensku ánægjuvoginni. Það er sú viðurkenning sem starfsfólki Vínbúðanna þykir hvað vænst um enda endurspeglar hún viðhorf viðskiptavina í garð fyrirtækisins. Án ánægðra viðskiptavina væri ÁTVR ekki til.

Ánægt starfsfólk er grunnur að góðum árangri. Í vinnustaðagreiningu svara 93% starfsfólks að það sé á heildina litið ánægt í starfi sínu. Áhersla er lögð á að vinnustaðurinn sé öruggur, heilsueflandi og að starfsfólk njóti virðingar. ÁTVR hefur sett sér jafnlaunastefnu og fengið jafnlaunavottun þar sem markmiðið er að allt starfsfólk njóti sömu kjara fyrir sömu eða jafnverðmæt störf, óháð kyni, þjóðerni eða öðrum órökstuddum þáttum. Starfsfólk er hvatt til að nýta sér vistvænar samgöngur með því að gera samgöngusamning og einnig stendur starfsfólki á höfuðborgarsvæðinu til boða að fá lánuð rafhjól. Þetta hefur skilað sér ágætlega og er ánægjuefni að segja frá því að ÁTVR var í 2. sæti í „Hjólað í vinnuna“ og Vínbúðin Heiðrún fékk æðstu viðurkenningu í Hjólavottun vinnustaða. Viðurkenningin, ásamt því að ÁTVR var efst í sínum flokki í Lífshlaupinu, sýnir að ÁTVR hefur náð miklum árangri í að hvetja starfsfólk til heilbrigðari lífstíls. Það skilar sér í færri veikindadögum og afkastameira og ánægðara starfsfólki.

ÁTVR rekur 51 Vínbúð og er nauðsynlegt að halda vel á spöðunum til þess að viðhalda húsnæði og búnaði. Haldið var upp á að framkvæmdum við Vínbúðina Dalvegi lauk á árinu og eins var Vínbúðin Skeifunni stækkuð og endurnýjuð. Báðar þessar Vínbúðir eru meðal þeirra stærstu og afkastamestu á landinu, þannig að mikilvægt var að endurnýja þær. Á undanförnum árum hefur fólki fjölgað mjög í nágrannabæjum höfuðborgarsvæðisins. Var svo komið að Vínbúðirnar Selfossi, Reykjanesbæ og Akranesi önnuðu ekki eftirspurn. Bæði á Selfossi og Akranesi tókst að finna ágætt húsnæði að undangengnum útboðum. Öllum framkvæmdum lauk á árinu og gat starfsfólk og viðskiptavinir fagnað því að verslanirnar voru komnar í nýtt og betra húsnæði. Í Reykjanesbæ var hægt að stækka og endurskipuleggja Vínbúðina á sama stað. Á öllum stöðunum var sérstaklega hugað að aðstöðu starfsfólks þannig að hún væri sem best úr garði gerð. Góður aðbúnaður skilar sér í ánægðara starfsfólki og það skilar sér beint í ánægðari viðskiptavinum. Loks má geta þess að Vínbúðirnar Hvammstanga og Patreksfirði voru teknar í gegn og lagfærðar. Starfsfólki Vínbúðanna vil ég þakka sérstaklega fyrir mikið þolgæði og útsjónarsemi meðan framkvæmdir stóðu yfir.

Vegna umræðu um fjölgun Vínbúða á undanförnum árum er rétt að taka það fram að frá árinu 2010 hefur einungis fjölgað um eina Vínbúð sem staðsett er á Kópaskeri. Árið 2010 voru 50 Vínbúðir á landinu og þá var mannfjöldi 20 ára og eldri 227.337 þannig að 4.547 einstaklingar voru um hverja þeirra. Í árslok 2019 eru Vínbúðirnar 51 og mannfjöldi 20 ára og eldri er kominn í 273.672 þannig að nú eru 5.366 einstaklingar um hverja Vínbúð. Flestar Vínbúðanna eru litlar og með takmarkaðan opnunartíma. Á höfuðborgarsvæðinu eru 14 Vínbúðir og þar eru 12.536 einstaklingar 20 ára og eldri um hverja þeirra.

Samfélagsleg ábyrgð er í kjarna fyrirtækisins og stuðlar hún að aukinni sjálfbærni með innleiðingu á hringrásarhagkerfinu. Til að ná markmiðum um sjálfbærni verður stefna fyrirtækisins fléttuð inn í  Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna og loftslagsmarkmið Festu og Reykjavíkurborgar til 2030. Unnið verður áfram með Græn skref í ríkisrekstri, vistvæn innkaup og grænt bókhald.

ÁTVR hefur frá árinu 2012 kolefnisjafnað alla beina losun og mun halda áfram að þróa kolefnisbókhald fyrirtækisins. Á árinu bættust við bókhaldið kolefnisspor umbúða um vöruna og losun kælimiðla. Áfram verður unnið með hagsmunaaðilum í þróun á sjálfbærum lausnum.

Norræn samvinna systurfyrirtækja er mikilvæg og þar eru skilgreind markmið til ársins 2025. Í ár voru birtar upplýsingar um áætlað kolefnisspor umbúða á vef. Á næstu árum verður unnið í vatnsnotkun í framleiðslu vörunnar og líffræðilegum fjölbreytileika.

Greint hefur verið frá sjálfbærni í rekstri fyrirtækisins frá árinu 2012 með GRI (Global Reporting Initiative) aðferðafræðinni og má sjá í sjálfbærniskýrslunni að minni sóun og áhersla á umhverfisvernd skilar fjárhagslegum ávinningi. Dæmi um það er að með því að flokka úrgang og ná 93% endurvinnsluhlutfalli, sparast 5 milljónir í förgunargjöld úrgangs og að auki skapast verðmæti fyrir tæpar 2 milljónir. Munurinn er upp á 7 milljónir króna árlega. Einnig kemur hringrás úrgangs í veg fyrir losun koltvísýrings sem samsvarar notkun allra bifreiða fyrirtækisins í 12 ár.

Undanfarna áratugi hefur verið mikil umræða um framtíð ÁTVR og fyrirkomulag áfengissölu á Íslandi. Sú umræða hefur skilað sér inn á Alþingi og mörg frumvörp og þingsályktunartillögur hafa verið lagðar fram um breytingu á einkaleyfinu sem ÁTVR byggir starfsemi sína á. Á síðustu áratugum hafa alls sextán frumvörp og þrjár þingsályktunartillögur verið lagðar fram. Þær hafa verið ólíkar og gengið mislangt í einkavæðingu. Fyrstu frumvörpin gengu út á að ÁTVR framseldi einkaleyfi sitt til reksturs Vínbúða til einkaaðila. Næst kom frumvarp um að leyfa sölu á áfengi með minna en 22% vínandastyrk í almennum verslunum. Það var lagt fram í lítið breyttri mynd sex sinnum. Þar á eftir kom frumvarp um að leggja ÁTVR niður og leyfa sölu alls áfengis í matvöruverslunum. Það var lagt fram þrisvar án mikilla breytinga. Árin 2017 og 2018 kom fram frumvarp um að afnema einkaleyfi ÁTVR og leyfa sölu áfengis í sérverslunum. Það var lagt fram tvisvar. Ekkert af ofangreindum frumvörpum hlaut brautargengi. Á árinu boðaði dómsmálaráðherra frumvarp um að leyfa einkaaðilum að selja áfengi í netsölu. Frumvarpið var kynnt í samráðsgátt stjórnvalda en hefur ekki enn verið lagt fram á Alþingi þegar þessi orð eru skrifuð. Ekki þarf að fjölyrða um hvaða áhrif óvissa um framtíð ÁTVR hefur á starfsfólk verslunarinnar en það á heiður skilinn fyrir að halda áfram af fullum krafti að veita viðskiptavinum ÁTVR sömu frábæru þjónustuna ár eftir ár þrátt fyrir hugmyndir um að leggja vinnustaðinn þeirra niður.

Ég vil þakka starfsfólki ÁTVR samstarfið á árinu.

Ívar J. Arndal

Heildarstefna
Inngangur
Heildarstefna
Leiðarljós

Að framfylgja stefnu stjórnvalda um bætta lýðheilsu og samfélagslega ábyrgð í áfengis- og tóbaksmálum í sátt við samfélagið

Stefna

Að vera í hópi bestu þjónustufyrirtækja landsins og fyrirmynd á sviði samfélagsábyrgðar

Áherslur
Ábyrgir starfshættir
  • Við viljum að sátt ríki í samfélaginu um núverandi fyrirkomulag á smásölu áfengis
  • Við förum vel með verðmæti og notum auðlindir af ábyrgð
  • Við leitum stöðugt nýrra leiða til þess að bæta reksturinn
  • Við gætum jafnræðis við val og dreifingu á vöru
  • Við viljum draga úr áfengisneyslu ungs fólks með því að tryggja að aldursmörk til áfengiskaupa séu virt
Ánægt starfsfólk
  • Við viljum að vinnustaðurinn sé öruggur, heilsueflandi og skemmtilegur þar sem samskipti einkennast af lipurð, þekkingu og ábyrgð
  • Við viljum að starfsfólk njóti virðingar og gerum því kleift að sinna starfi sínu á sem bestan hátt
  • Við leggjum áherslu á að starfsfólk fái tækifæri til að auka þekkingu sína og hæfni
  • Við líðum ekki mismunun á vinnustaðnum og tryggjum að starfsfólk njóti sömu kjara fyrir sambærileg störf
Ánægðir viðskiptavinir
  • Við setjum viðskiptavininn í öndvegi og tökum mið af væntingum hans
  • Við veitum þjónustu sem byggir á lipurð, fagmennsku og hlutleysi
  • Við leggjum áherslu á fræðslu til viðskiptavina án þess að hvetja til meiri neyslu
Ábyrgt vöruval
  • Við leitumst við að bjóða eingöngu vörur sem framleiddar eru samkvæmt alþjóðlegum viðmiðum
  • Við viljum að vöruvalið sé áhugavert og byggi á fjölbreytileika og gæðum
  • Við viljum tryggja öryggi og gæði vara
  • Við viljum vernda ungt fólk með því að hindra framboð á óæskilegum vörum
Virðing fyrir umhverfinu
  • Við berum virðingu fyrir umhverfinu og leitum leiða til að lágmarka umhverfisáhrif af starfseminni
  • Við drögum úr úrgangi með markvissum hætti og bjóðum viðskiptavinum upp á vistvænar lausnir
Stefnan var í gildi frá 1. janúar 2015 – 31. desember 2019

ÁTVR hefur sett sér stuðningsstefnur í samræmi við heildarstefnu. Í gildi eru þjónustustefna, mannauðsstefna, öryggisstefna, umhverfisstefna, jafnlaunastefna og jafnréttisáætlun, gæðastefna auk siðareglna sem kynntar eru öllu nýju starfsfólki.

Framkvæmdaráð
Inngangur
Framkvæmdaráð
Ívar J. Arndal
Forstjóri
Sigrún Ósk Sigurðardóttir
Aðstoðarforstjóri
Sveinn Víkingur Árnason
Framkvæmdastjóri
Skipulag og stjórnun
Inngangur
Skipulag og stjórnun

ÁTVR starfar eftir lögum um verslun með áfengi og tóbak nr. 86/2011. Lögin gilda um smásölu á áfengi og heildsölu á tóbaki. Markmið laganna er þríþætt: að skilgreina umgjörð um smásölu áfengis og heildsölu tóbaks sem byggist á bættri lýðheilsu og samfélagslegri ábyrgð, að takmarka og stýra aðgengi að áfengi og tóbaki og draga þannig úr skaðlegum áhrifum áfengis- og tóbaksneyslu, að vernda ungt fólk gegn neyslu áfengis og tóbaks og takmarka framboð á óæskilegum vörum. Fjármála- og efnahagsráðherra skipar forstjóra sem fer með stjórn stofnunarinnar og ber ábyrgð á daglegum rekstri.

Skipuritið sýnir starfsemi fyrirtækisins á myndrænan hátt. Meginsviðin eru tvö, vörudreifing og heildsala tóbaks og sölu- og þjónustusvið. Stoðsviðin eru fjögur, fjárhagssvið, mannauðs- og starfsþróunarsvið, rekstrarsvið og vörusvið, en þeim er ætlað að styðja meginsviðin tvö. Framkvæmdastjórar eru tveir og bera þeir ábyrgð á daglegri starfsemi sviðanna. Til að tryggja skilvirka stjórnun funda forstjóri og framkvæmdastjórar að jafnaði vikulega. Reglulega fundar yfirstjórn með lykilstjórnendum til að fara yfir stöðu verkefna. Til að tryggja öflugt upplýsingaflæði eru reglulega haldnir fundir með starfsfólki í höfuðstöðvum, dreifingarmiðstöð og verslunarstjórum stærri Vínbúða. Verslunarstjórar stærri Vínbúða funda reglulega með sínu starfsfólki.

Fjöldi verkefna er unninn í verkefnahópum með þátttöku starfsfólks frá ólíkum sviðum og starfsstöðvum. Stærsta verkefni ársins var endurskoðun á heildarstefnu. Ný stefna tók gildi 1. janúar 2020. Verkefnið var unnið undir stjórn stýrihóps en haldnar voru fjórar vinnustofur með þátttöku um 70 starfsmanna, tekin voru viðtöl við stjórnendur og hagsmunaaðila auk þess sem gögn og kannanir voru rýndar. Öllu starfsfólki var send skoðanakönnun og þannig gefinn kostur á að koma að stefnumótunarvinnunni með því að segja skoðun sína á því sem vel er gert og því sem betur mætti fara. Þátttaka var frábær en yfir 200 starfsmenn sendu mikinn fjölda ábendinga sem nýttust vel til að móta stefnu, áherslur og aðgerðir næstu ára.

Árs- og samfélagsskýrsla
Inngangur
Árs- og samfélagsskýrsla

Árs- og samfélagsskýrslan nær yfir alla starfsemi ÁTVR sem er eingöngu á Íslandi og gildir fyrir árið 2019. Ísland er skilgreint sem nærsamfélag og eru allir stjórnendur íslenskir og búsettir á landinu. Skýrslan er gefin út á rafrænu formi og birt á www.vinbudin.is. Hægt er að prenta skýrsluna út í heild eða velja einstaka hluta til útprentunar.

Við gerð skýrslunnar er fylgt Global Reporting Initiative (GRI) Standards. Tilgangurinn er að skrá og miðla með gagnsæjum hætti upplýsingum sem tengdar eru samfélagslegri ábyrgð. Í skýrslunni sem fylgir Core útgáfunni er gerð grein fyrir 38 mælikvörðum í öllum þrem flokkum sjálfbærni. Hægt er að nálgast GRI – tilvísunartöflu í viðauka hér.

ÁTVR er meðlimur í Festu - miðstöð um samfélagsábyrgð og tekur virkan þátt í starfsemi félagsins. Hlutverk Festu er að efla samfélagslega ábyrgð fyrirtækja og hvetja fyrirtæki til að tileinka sér samfélagslega ábyrga starfshætti og stuðla að aukinni sjálfbærni.

Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun eru víðtækustu markmið sem ríki heims hafa komið sér saman um í því augnamiði að tryggja velmegun og mannréttindi um allan heim. ÁTVR hefur það markmið að innleiða heimsmarkmiðin inn í ferla eins og kostur er. Í skýrslunni er gerð grein fyrir einstökum áherslum tengdum heimsmarkmiðunum þar sem það á við og í sérstökum hluta skýrslunnar er að finna heildaryfirlit. ÁTVR hefur einnig skrifað undir Jafnréttissáttmála UN Women.

Hagsmunaaðilar
Inngangur
Hagsmunaaðilar
Stefna ÁTVR er að vera í hópi fremstu þjónustufyrirtækja landsins og fyrirmynd á sviði samfélagsábyrgðar.

Við mat á samfélagslegri ábyrgð hefur hagsmunaaðilum verið skipt í fimm flokka: Viðskiptavinir, mannauður, samfélagið, eigandinn og birgjar. Gerð er grein fyrir áherslum gagnvart einstökum hagsmunaaðilum, en allar miða þær að því að fylgja þeim áherslum sem koma fram í heildarstefnunni.

Sjálfbærnistjórnun
Inngangur
Sjálfbærnistjórnun
Markmið og mælikvarðar

Aðgerðaáætlun er unnin út frá stefnu og áherslum að jafnaði til þriggja ára í senn. Á grunni þeirrar áætlunar er unnin ársáætlun með helstu verkefnum og ábyrgðaraðilum. Mælanleg markmið eru sett fyrir flesta þætti í rekstri og niðurstöður kynntar mánaðarlega í skorkortum. Öll skorkort eru aðgengileg starfsfólki á sérstöku vefsvæði auk annarra gagnlegra upplýsinga sem snúa að rekstri. Stöðugt er unnið að því að þróa upplýsingar og gögn sem eru ætlaðar stjórnendum til að auðvelda ákvarðanir og auka yfirsýn.

Sjálfbærnistjórnun

Í töflunni má sjá helstu markmið og mælikvarða flokkað eftir hagsmunaaðilum með tilvísun í GRI mælikvarða og Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna. Einnig er í töflunni tilvísun í siðareglur alþjóðasamtakanna amfori. Samtökin eru leiðandi í heimi viðskipta þar sem markmiðið er að tryggja að öll viðskipti skapi félagslegan, umhverfislegan og fjárhagslegan ávinning fyrir alla. Áfengiseinkasölur á Norðurlöndunum, þar með talið ÁTVR, eru aðilar að amfori. Markmið með samstarfinu er að tryggja eins og kostur er að allar söluvörur séu framleiddar í samræmi við siðareglurnar og skapi þannig aukinn ávinning fyrir alla.